torsdag 22 augusti 2013

Skólasetning afstaðin, sá eldri að byrja í 6. bekk og sá yngri í 2. bekk.
Síðan ágústmánuður byrjaði hefur verið að færast einhver drungi yfir börnin sem náði svo algjöru hámarki í gærkvöldi. Eftir afhendingu stundaskráa var eins og þeir væru stjarfir, eins og það væri búið að dæma þá til einhvers konar vítisdvalar í heilan vetur. Þetta man ég ekki eftir að hafa orðið vör við þegar við bjuggum í Svíþjóð, að krakkarnir kviðu því að byrja í skóla og störðu eins og vofur á innkaupalista (nei, já, það eru engir innkaupalistar í Svíþjóð), heldur var þetta partur af hinni árlegu rútínu. Kennarar og skólastjóri litu alltaf glaðlega yfir hópinn þegar þau mættu fyrsta daginn, nú fyrst mátti gamanið byrja eftir langt sumarfrí.
Það er ekki létt að reyna að stappa í þá stálinu, segja þeim að þetta verði allt alveg aldeilis fínt og að það verði gott að komast í rútínu aftur. Sjálf kveið ég hverjum vetri alltaf alveg hryllilega, ég þekki tilfinninguna sem þeir eru að upplifa núna en reyni mitt besta til að láta sem ekkert sé.

onsdag 14 augusti 2013

Sjálfsvorkunn

Suma daga gerist bara eitthvað. Eitthvað svo saklaust að það myndi kannski ekki hreyfa við næsta manni. En í mínu tilviki verður það stundum svo stórt að ég veit ekki lengur hvernig ég á að hantera aðstæðurnar, hvort ég eigi að hlæja eða gráta, vera þakklát að hlutirnir séu ekki enn verri eða leggjast í sjálfsvorkunn og láta alla vita hvað mér finnst lífið ömurlegt.
Í dag fór ég til læknis eftir að hafa upplifað slæmt verkjakast í gær. Þessi verkjaköst eru farin að koma ansi ört, yfirleitt ef ég hef "reynt mikið á mig", en sú áreynsla getur t.d. verið að halda eitt stykki afmælis-köku-boð fyrir 10 manns.
Ég lýsti verkjunum og upplifuninni fyrir lækninum, hvernig mér leið eins og ég væri undin á öllum liðamótum; ökklum, úlnliðum, mjöðmum, einnig öxlum og handleggjum. Hvernig ég gat ekki rétt úr mér í allt gærkvöld heldur lá bara í fósturstellingu undir teppi, með krampakenndan vöðvaverk sem var orðinn svo óþægilegur að ég fann fyrir velgju. Með grátstafinn í kverkunum lét ég loks renna í heitt bað, svo heitt að það var næstum ekki hægt að sitja í því. Þá fyrst gat ég rétt almennilega úr mér og verkirnir fóru að mestu. Ég treysti mér samt ekki í vinnu í morgun, heldur pantaði þetta læknaviðtal og fékk, eftir smá pikk og pot og ó og æ, þá niðurstöðu að ég væri með vefjagigt.
Þetta hefði ekki átt að koma mér á óvart, hvað þá úr jafnvægi. Ég hef fundið fyrir allskyns einkennum og kvillum undanfarin ár sem hafa stigmagnast og í hvert skipti sem ég prófa að gúggla mér til um hvað það getur þýtt fæ ég alltaf sömu niðurstöðu.
Vefjagigt.
Allt frá aumum liðum, síþreytu, krampa í þvagblöðru, óþægindum frá ristli, þreytuverkjum og kvíða.
Auðvitað ætti ég að fagna því að það sé loks komin skýring á því hvað hefur verið að hrjá mig í langan tíma. Ég sagði oft í gríni að ég ætti að kíkja í einhvers konar ástandsskoðun, því það væru svo margir litlir hlutir að bögga mig að ég ætti orðið erfitt með að velja á milli, hvert þeirra á ég að tala um við lækninn minn í dag?
En nú virðist þetta vera komið á hreint og ég get sett öll þessi leiðindi undir einn og sama hattinn.
Og þá kemur bömmerinn.
Ég hugsa bara um takmarkanirnar sem fylgja þessu. Ég mun þurfa að lifa með þessu það sem eftir er.
Ætli það sé skárra að greinast með þetta seinna, kannski uppúr fimmtugu?
Þá er ekki eins yfirþyrmandi tími eftir sem þarf að tækla þetta, kannski 30 ár.
En fyrir mig sem er ekki nema 31, að þá finnst mér öll eilifðin vera eftir.
Ég mun aldrei geta unnið vinnu sem reynir á líkamlega. Börnin mín munu alltaf þurfa að horfa upp á mig leggjast í kör einhverja daga í mánuði af því ég afrekaði að skúra og ryksuga heilt herbergi. Ég er með verkjasjúkdóm, og ég lærði nógu mikið í sjúkraliðanáminu til að vita að verkir eru ein algengasta orök þunglyndis og kvíða.
Jibbí. Mátti í alvöru bæta á áhyggjurnar?
Kannski get ég reynt að snúa þessu við, eins og mér tókst fyrripartinn í dag;
Það þarf þá ekki að hafa áhyggjur af að þetta sé krabbamein, taugahrörnunarsjúkdómur eða eitthvað þaðan af verra. Það er til nafn fyrir þetta, kannski munu allar litlu áhyggjurnar af litlu kvillunum hverfa með tímanum. Dagarnir munu kannski fyrst og fremst snúast um hvernig ég kemst hjá því að upplifa verki og þreytu, ekki hvort ég sé með fæðuóþol og sé þess vegna alltaf að drepast í maganum.
En...
Ég geng sjálf á báðum, anda án aðstoðar og get bæði séð börnin mín og heyrt í þeim.
Þarf maður kannski bara ekkert að biðja um meira?

måndag 12 augusti 2013

Mánudagur

Ég hitti ansi hressan leigubílstjóra í dag.
Þegar ég sest inn í bílinn hans verður mér á orði að maður kunni ekki við annað en að setja á sig beltið, þegar tímarnir eru svona eins og þeir hafa verið undanfarið. Þá átti ég að sjálfsögðu við að það hafa verið svo mörg banaslys síðustu vikur að manni finnst öryggið eigi að vera algjörlega í fyrirrúmi.
Þá bregst minn bara hinn versti við, fer að tala um hvað það sé mikil hystería í fólki nú til dags.
Börn eiga bara að vera í bílstólum og hjálma um allt, og svo má fólk varla setjast í bíl lengur án þess að þurfa að setja á sig belti. Börnin verði nú að læra að verja sig.
"Og þetta að hraðinn drepi? Það var nú gerð rannsókn í Þýskalandi og þeir komust nú bara að því að fæstu banaslysin þar verða á autobahn, þar sem er ótakmarkaður hraði!"

Æi, svona fólk, sem talar bara í einhverri samhengisleysu. Gaman að því.

torsdag 1 augusti 2013

Föt

Ég var að taka svo fína ákvörðun á dögunum.
Undanfarin ár hef ég ekki verið nógu dugleg við að kaupa á mig föt. Þetta slapp á meðan við vorum í Svíþjóð, þá svona átti ég til að stelast aðeins í H&M, en það var aldrei með neitt sérstaklega góðri samvisku. Ég fékk alltaf smá móral yfir að vera að eyða peningum í MIG. Þá gat ég friðað þessa samvisku með því að versla í bland second-hand fyrir eitthvað klink, en mér fannst það aldrei neitt sérstaklega gaman. Að ganga í snjáðum fötum sem einhver önnur hafði ákveðið að væru nógu góð til að henda á flóamarkað.
Þannig að frá og með núna mun ég eyða einhverjum smá aur í hverjum mánuði til að kaupa mér flík sem mig vantar. Eða vantar ekki, það má líka bara vera eitthvað fallegt.
Þegar ég lít í kringum mig sé ég alveg muninn á þeim sem greinilega leggja smá metnað í útlitið, og svo þær sem gefa skít í hvernig þær koma fyrir. Og það er mikill munur, ef út í það er farið.
Ég vil að það sé tekið mark á mér og ég vil sýna umhverfinu þá virðingu að ganga um í heillegum og snyrtilegum fötum. Með hreint hár, jafnvel smá farða, þá gef ég í skyn að mér er ekkert alveg sama.
Kona sem ég vinn með bjó í Róm í 30 ár. Hún segir að þar fari kona aldrei út fyrir dyr öðruvísi en vel tilhöfð og smart. Ilmandi og lekker. Hvers vegna eigum við uppi á Íslandi að hugsa eitthvað öðruvísi?
Berum við ekki meiri virðingu fyrir sjálfum okkur en svo, að við látum sjá okkur í einhverjum flísgörmum og slitnum bómullarbuxum, berfættar í Crocs? Hvað er það eiginlega?
Nei, vitið þið, ég vil að það sjáist að hér fari stolt manneskja, sem ber virðingu fyrir sjálfri sér.
Svo er líka bara svo leiðinlegt að hafa sig af stað og út þegar maður á ekkert að fara í nema allt of víðar gallabuxur og einhverja strigaskó. Allavega er ég orðin hundleið á því.