onsdag 14 augusti 2013

Sjálfsvorkunn

Suma daga gerist bara eitthvað. Eitthvað svo saklaust að það myndi kannski ekki hreyfa við næsta manni. En í mínu tilviki verður það stundum svo stórt að ég veit ekki lengur hvernig ég á að hantera aðstæðurnar, hvort ég eigi að hlæja eða gráta, vera þakklát að hlutirnir séu ekki enn verri eða leggjast í sjálfsvorkunn og láta alla vita hvað mér finnst lífið ömurlegt.
Í dag fór ég til læknis eftir að hafa upplifað slæmt verkjakast í gær. Þessi verkjaköst eru farin að koma ansi ört, yfirleitt ef ég hef "reynt mikið á mig", en sú áreynsla getur t.d. verið að halda eitt stykki afmælis-köku-boð fyrir 10 manns.
Ég lýsti verkjunum og upplifuninni fyrir lækninum, hvernig mér leið eins og ég væri undin á öllum liðamótum; ökklum, úlnliðum, mjöðmum, einnig öxlum og handleggjum. Hvernig ég gat ekki rétt úr mér í allt gærkvöld heldur lá bara í fósturstellingu undir teppi, með krampakenndan vöðvaverk sem var orðinn svo óþægilegur að ég fann fyrir velgju. Með grátstafinn í kverkunum lét ég loks renna í heitt bað, svo heitt að það var næstum ekki hægt að sitja í því. Þá fyrst gat ég rétt almennilega úr mér og verkirnir fóru að mestu. Ég treysti mér samt ekki í vinnu í morgun, heldur pantaði þetta læknaviðtal og fékk, eftir smá pikk og pot og ó og æ, þá niðurstöðu að ég væri með vefjagigt.
Þetta hefði ekki átt að koma mér á óvart, hvað þá úr jafnvægi. Ég hef fundið fyrir allskyns einkennum og kvillum undanfarin ár sem hafa stigmagnast og í hvert skipti sem ég prófa að gúggla mér til um hvað það getur þýtt fæ ég alltaf sömu niðurstöðu.
Vefjagigt.
Allt frá aumum liðum, síþreytu, krampa í þvagblöðru, óþægindum frá ristli, þreytuverkjum og kvíða.
Auðvitað ætti ég að fagna því að það sé loks komin skýring á því hvað hefur verið að hrjá mig í langan tíma. Ég sagði oft í gríni að ég ætti að kíkja í einhvers konar ástandsskoðun, því það væru svo margir litlir hlutir að bögga mig að ég ætti orðið erfitt með að velja á milli, hvert þeirra á ég að tala um við lækninn minn í dag?
En nú virðist þetta vera komið á hreint og ég get sett öll þessi leiðindi undir einn og sama hattinn.
Og þá kemur bömmerinn.
Ég hugsa bara um takmarkanirnar sem fylgja þessu. Ég mun þurfa að lifa með þessu það sem eftir er.
Ætli það sé skárra að greinast með þetta seinna, kannski uppúr fimmtugu?
Þá er ekki eins yfirþyrmandi tími eftir sem þarf að tækla þetta, kannski 30 ár.
En fyrir mig sem er ekki nema 31, að þá finnst mér öll eilifðin vera eftir.
Ég mun aldrei geta unnið vinnu sem reynir á líkamlega. Börnin mín munu alltaf þurfa að horfa upp á mig leggjast í kör einhverja daga í mánuði af því ég afrekaði að skúra og ryksuga heilt herbergi. Ég er með verkjasjúkdóm, og ég lærði nógu mikið í sjúkraliðanáminu til að vita að verkir eru ein algengasta orök þunglyndis og kvíða.
Jibbí. Mátti í alvöru bæta á áhyggjurnar?
Kannski get ég reynt að snúa þessu við, eins og mér tókst fyrripartinn í dag;
Það þarf þá ekki að hafa áhyggjur af að þetta sé krabbamein, taugahrörnunarsjúkdómur eða eitthvað þaðan af verra. Það er til nafn fyrir þetta, kannski munu allar litlu áhyggjurnar af litlu kvillunum hverfa með tímanum. Dagarnir munu kannski fyrst og fremst snúast um hvernig ég kemst hjá því að upplifa verki og þreytu, ekki hvort ég sé með fæðuóþol og sé þess vegna alltaf að drepast í maganum.
En...
Ég geng sjálf á báðum, anda án aðstoðar og get bæði séð börnin mín og heyrt í þeim.
Þarf maður kannski bara ekkert að biðja um meira?

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar