torsdag 1 augusti 2013

Föt

Ég var að taka svo fína ákvörðun á dögunum.
Undanfarin ár hef ég ekki verið nógu dugleg við að kaupa á mig föt. Þetta slapp á meðan við vorum í Svíþjóð, þá svona átti ég til að stelast aðeins í H&M, en það var aldrei með neitt sérstaklega góðri samvisku. Ég fékk alltaf smá móral yfir að vera að eyða peningum í MIG. Þá gat ég friðað þessa samvisku með því að versla í bland second-hand fyrir eitthvað klink, en mér fannst það aldrei neitt sérstaklega gaman. Að ganga í snjáðum fötum sem einhver önnur hafði ákveðið að væru nógu góð til að henda á flóamarkað.
Þannig að frá og með núna mun ég eyða einhverjum smá aur í hverjum mánuði til að kaupa mér flík sem mig vantar. Eða vantar ekki, það má líka bara vera eitthvað fallegt.
Þegar ég lít í kringum mig sé ég alveg muninn á þeim sem greinilega leggja smá metnað í útlitið, og svo þær sem gefa skít í hvernig þær koma fyrir. Og það er mikill munur, ef út í það er farið.
Ég vil að það sé tekið mark á mér og ég vil sýna umhverfinu þá virðingu að ganga um í heillegum og snyrtilegum fötum. Með hreint hár, jafnvel smá farða, þá gef ég í skyn að mér er ekkert alveg sama.
Kona sem ég vinn með bjó í Róm í 30 ár. Hún segir að þar fari kona aldrei út fyrir dyr öðruvísi en vel tilhöfð og smart. Ilmandi og lekker. Hvers vegna eigum við uppi á Íslandi að hugsa eitthvað öðruvísi?
Berum við ekki meiri virðingu fyrir sjálfum okkur en svo, að við látum sjá okkur í einhverjum flísgörmum og slitnum bómullarbuxum, berfættar í Crocs? Hvað er það eiginlega?
Nei, vitið þið, ég vil að það sjáist að hér fari stolt manneskja, sem ber virðingu fyrir sjálfri sér.
Svo er líka bara svo leiðinlegt að hafa sig af stað og út þegar maður á ekkert að fara í nema allt of víðar gallabuxur og einhverja strigaskó. Allavega er ég orðin hundleið á því.

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar