torsdag 22 augusti 2013

Skólasetning afstaðin, sá eldri að byrja í 6. bekk og sá yngri í 2. bekk.
Síðan ágústmánuður byrjaði hefur verið að færast einhver drungi yfir börnin sem náði svo algjöru hámarki í gærkvöldi. Eftir afhendingu stundaskráa var eins og þeir væru stjarfir, eins og það væri búið að dæma þá til einhvers konar vítisdvalar í heilan vetur. Þetta man ég ekki eftir að hafa orðið vör við þegar við bjuggum í Svíþjóð, að krakkarnir kviðu því að byrja í skóla og störðu eins og vofur á innkaupalista (nei, já, það eru engir innkaupalistar í Svíþjóð), heldur var þetta partur af hinni árlegu rútínu. Kennarar og skólastjóri litu alltaf glaðlega yfir hópinn þegar þau mættu fyrsta daginn, nú fyrst mátti gamanið byrja eftir langt sumarfrí.
Það er ekki létt að reyna að stappa í þá stálinu, segja þeim að þetta verði allt alveg aldeilis fínt og að það verði gott að komast í rútínu aftur. Sjálf kveið ég hverjum vetri alltaf alveg hryllilega, ég þekki tilfinninguna sem þeir eru að upplifa núna en reyni mitt besta til að láta sem ekkert sé.

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar