måndag 17 juni 2013

Fínt að vera feitur.

Það er greinilega voða mikið í tízku í dag, að það sé bara allt í lagi og æðislegt að vera feit/ur.
Og þegar ég segi feitur meina ég að vera í áberandi yfirþyngd, ekki bara þetta eina gramm sem sumar sveiflast með á alla kanta og halda að þær þurfi að fara að gera eitthvað í málunum.
Nei, konur eru að birta myndir af mjööög íturvöxnum konum í bikiníi, það er talað um að hver og einn hafi frelsi til að líta út eins og hann vill og að það sé bara fallegt og æðislegt að vera feit. Maður eigi bara að vera feitur alla ævina helst.

Nú. Ég hef unnið nógu lengi við umönnun/hjúkrun til að geta sagt ýmislegt um offitu sem fæstir pæla nokkru sinni í. Í fyrsta lagi má nefna að öll aðhlynning of þungra einstaklinga er erfið, fólk á erfitt með gang og hreyfingu og verður algjörlega hátt aðstoð annarra langt fyrir aldur fram af þeim orsökum.
Stoðkerfið gefur sig fljótt ef fólk leyfir þyngdinni að eiga sig. Að vera með léleg hné og vera slæm í baki er mjög almennur fylgikvilli, jafnt hjá yngri sem eldri.
Að sinna manneskju með fellingar um allt (undir maga, í nára, hnésbótum ofl.) er vandasamt verk. Það þarf að þrífa allar fellingar, helst daglega, halda þeim þurrum til að forða því að það myndist sár sem síðan getur sýkst. Þá er líka hætta á sveppasýkingum sem er ekki skemmtileg; það fylgir henni vond lykt og þetta getur orðið mjög hvimleitt fyrir þann sem þarf að standa í því.

Síðan eru það auðvitað allir sjúkdómarnir sem fylgja ofþyngd. Sykursýki, hár blóðþrýstingur og aðrir hjarta- og æðasjúkdómar, þunglyndi, gigtarsjúkdómar og guð má vita hvað.

Mér finnst ekkert krúttlegt við það að vera feit, sé engan húmor í því að maður eigi bara að leyfa sér þetta, lífið sé svo stutt og allt það. Well, ef þú vilt stytta lífið enn frekar skaltu endilega halda þessu áfram, en ef þú ætlar að njóta þín og lifa lífinu nokkuð glöð/glaður skaltu frekar hugsa um að hreyfa þig, njóta náttúrunnar, virða líkama þinn því þú færð bara einn slíkan. Það er ekkert kósí að vera alltaf með brjóstsviða, vera andstuttur með bólur og gyllinæð.

Ég mætti sjálf vera léttari, en ég get allavega sagt með góðri samvisku að ég er fullkomlega meðvituð um hætturnar sem fylgja yfirvigtinni og reyni því að sporna við að breytast ekki í eitthvað flykki. Því ég vill ekki vera enn meiri byrði fyrir fólk í aðhlynningarstörfum þegar ég verð gömul. Og svo þykir mér bara svolítið vænt um heilbrigða líkamann minn, mér finnst gott að geta hreyft mig og hlaupið, ég er þakklát fyrir það sem mér hefur verið gefið.

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar